matur um mat frá mat til matar

það var sem við manninn mælt, um leið og stelpurnar stigu upp í flugvélina í morgun byrjaði að rigna. því er spáð út alla þessa viku mér til mikillar gleði, þá þarf ég ekki að fara út i sólbað heldur get verið inni að skrifa. Segja má að seinasta vika hafi einkennst af sögusögnum, gleði, hlátri, matarinnkaupum, matargerð, mataráti og víndrykkju. Stelpurnar sáu reyndar miðborgina, grasagarðinn og ströndina en þar með er það upptalið. Í grasagarðinum hittum við Gandalf sem er býflugnabúshaldari, veit allt í heiminum sem ekki snýr að tækni og tekur utan um geitunga með berum höndunum. Gandalfur var sendur til Íslands 14 og 15 ára til að vinna á bóndabæ fyrir norðan og vorum við fyrstu íslendingarnir sem hann hittir síðan þá en Gandalfur er líklegast um 60ára.


glaumur og gleði

Undanfarna daga hefur ríkt mikil gleði að Rauðhattagötu 5, meiri en vanalega. Skvísurnar mættu hér galvaskar og kátar á þriðjudag og síðan þá hefur ekki verið stoppað. Sofið frameftir, borðaðir langir og stórir gúrme brunchar, rölt um götur borgarinnar í 20c og glaða sól, í gær farið í pikk nikk í grasagarðinum, setið frameftir með rauðvín í glasi og heimsmálin rædd. Held sjálf uppi áróðri um að heimsmálin og tilgangur lífsins séu rædd á milli 9 og 11 á morgnana en sú hugmynd hefur ekki fallið í kramið innan hópsins, skil ekki afhverju.
Í augnablikinu standa þær stöllur sveittar á bak við eldavélina og malla handa okkur morgunverð (kl.14:35) að hætti þeirra elskulegu breta; al-íslenskar pönsur, beikon, pylsur, bakaðar baunir, egg og ávaxta smoothie.
Plan kvöldsins er að kíkja í osta og vín á vínbarnum kl.19, Mozart requiem tónleika í dómkirkjunni kl.21 og sushi á eftir. ekki leiðinlegt það

en þú ert meira svona...

Já það er fyndið hvernig fólki er ósjálfrátt skipt niður eftir því hvernig týpur það er og hvernig strauma það gefur frá sér. Allir, og þá meina ég allir, sem ég hef nefnt við seinustu vikur að ég ætli að skella mér í viðskiptafræði næsta vetur hafa kváð hátt og snjallt og hissast stórum. "en Hildur, þú ert svo langt frá því að vera svona viðskiptafræðitýpa, aldrei hefði mér dottið þetta í hug. hafði meira séð þig fyrir mér í einhverju listatengdu eða kannski kynjafræði með mannfræðinni". Hefur mér þótt þetta mjög skemmtilegar athugasemdir, gaman að heyra hvernig fólk myndar sér skoðun um hvert annað. Staðreyndin er hinsvegar sú að ég er skort öllu listrænu innsæi með meiru en er hinsvegar með meðfætt bankagen, þetta vita ekki margir. Planið er því að beisla þetta bankagen og nýta það til að leggja mitt af mörkum til að bjarga mannkyninu og sýna þessum hjálparstafsmönnum út í heimi hvernig á að fara með úthlutað fjármagn og deila niður verkefnum þannig að sem flestir fái að njóta. Svo er aldrei að vita hvort draumurinn um eigið kaffihús verði að veruleika þegar heimurinn er kominn í öruggar hendur.

stærðfræðikennari

Auglýst er eftir einstaklingi til að kenna aukatíma í stærðfræði. Viðkomandi þarf að hafa ótakmarkaða þolinmæði og helst að vera laus snemma á morgnana þar sem viðfangsefnið er viðráðanlegast á þeim tíma sólarhringsins!
Skráði mig í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og stefnumótun í dag. Flestir áfangarnir mjög spennandi, eins og stefnumótun fyrirtækja og verkefnastjórnun, flest kennt á ensku. Þó leynast þar þrír áfangar sem ég er nú þegar farin að fá matraðir yfir; rekstrarhagfræði 1, inngangur að fjárhagsbókhaldi sem meðal annars inniheldur tvíhliða bókhald og kennitöluútreikninga og svo er fjármál 1. Það liggur ljóst fyrir að það verður ekkert sem heitir félagslíf næsta vetur nema bingo fyrsta föstudag í mánuði.


klukkan er...

Þess ber að geta að klukkunni var breytt í nótt og erum við sambýlingarnir því tveimur tímum á undan ykkur þarna fyrir norðan í kuldanum.

í bóhemlífinu er þetta helst

Hverju get ég nú logið að ykkur svo líf okkar sambýlinganna hljómi eins og fjölbreytt, spennandi og eftirsóknavert bóhemlíf við Miðjarðarhafið? jú, eftir allt of langt hlé mætti ég loks í jóga fimmtudag og föstudag. það var erfiðara en orð fá lýst og hélt ég á föstudagskvöld að ég væri komin með langtímaverkefni fyrir Finn, að færa mér mat í rúmið næstu vikurnar þar sem ég gæti ekki staðið upp a flekanum nema til að sinna köllum náttúrunnar. þess gerist þó ekki þörf og get ég nú ekki beðið eftir að mæta í jóga á morgun enda ávalt gott fyrir líkama og sál.
Erum búin að fara í tvö kveðjuteiti í vikunni, nei, það eru ekki allir að fara heldur voru þau hjá sömu aðilunum, héldu eitt á ölstofu í bænum á miðvikudagskvöldið og annað heima hjá sér í gærkvöldi. Var nánast alveg sama fólkið bæði kvöldin. ágætis upplyfting
Í gær var um 20c og heiðskýrt. var búin að ákveða að fara á nýuppgvötaða bókasafn borgarinnar sem er ekki með neinum innstungum til að hlaða tölvur, til að skrifa en hætti snarlega við þar sem ég labbaði á grænmetis/ávaxtamarkaðinn og settist í stað þess undir vegg og las um það hvernig ungar stúlkur hlaupast að heiman til að láta umskera sig gegn vilja nútímaforeldra sinna sem ákváðu gegn vilja samfélagsins að umskera þær ekki á barnsaldri.
Nú eru ekki nema tveir dagar í komu las chicas og því ekki seinna vænna að fylla kofan af te, leigja ljóðabækur á bókasafninu, hlaða niður klassískri tónlist og draga fram prjónana.

myndir

Skellti inn nokkrum myndum frá marsmánuði hér til vinstri. Alveg er það merkilegt að andinn komi ekki alltaf yfir mann um leið og maður sest niður til að skrifa. Búin að stara á skjáinn síðan kl.10 en hef enn ekki komið orði niður. Færi út í sólbað en það er hálfskýjað og því aðeins sól á köflum. ætlað athuga hvort grænt sallat og smoothie komi heilanum í gang.

pönsur með öllu

Áskotnaðist fleki í gær, einskonar dýnufleki eða dýna. er þessi dýnufleki um það bil helmingi breiðari en 70cm svampdýnan sem ég hef kúrt á síðan í september. svaf ég eins og prinsipessa

Erum að fara í síðbúið fælles páskagrill á eftir, ætlum að taka með okkur íslenskar pönnukökur úr frönsku hráefni til að spísa í eftirrétt.

Hér er skrambi kalt verð ég að segja


morgunstund gefur gull í mund

Væru engir örðugleikar til í heiminum
hefðu menn ekki
ánægju af að sigra þá

verð að segja að þessi er töluvert betri en sá er ég fékk í fyrra sem tókst nánast að eyðileggja fyrir mér ferð sem þá stóð sem hæst hjá Albínu í nýju jórvík svo miður mín var ég en hann var e-h á þessa leið

Að vera piparmey er eins og að drukkna
yndisleg tilfinning um leið og þú sættir þið við það

man ekki lengur frá hvaða sælgætisframleiðanda hann kom en hugleiddi lengi að krefjast bóta í formi ævibyrgða af súkkulaði sökum þess hvað málshátturinn hafði lagst mikið á sál mína og látið mér líða illa. sem betur fer ekki vegna þess að ég þekkti einhvern sem hafði drukknað heldur vegna þess að þá og reyndar enn þann dag í dag er flest sem bendir til þess að ég muni verða piparmey um aldur og ævi...enda rétt bráðum að verða 25

verið nú dugleg að borða kæru lesendur


...en mig langar út í sólina

Vissuð þið að hákarlar (að minnsta kosti sú tegund sem er í sædýrasafninu í Montpellier) borða bara fisk og er aðeins gefið að éta 3x í viku? Þetta sagði mjög svo myndalegur starfsmaður safnsins mér. Held það sé mikill misskilningur að dýragarðar og sædýrasöfn séu að mestu gerð fyrir börnin. Held ég hafi ekki skemmt mér neitt síður en Garðar sem hljóp eins og þeytispjald á milli búranna. við gamla fólkið tókum þó aðeins lengri tíma til að fylgjast með hvernig stóru humrarnir pirruðu sig á þeim minni og í að fylgjast með otrum leggja í einelti, merkilegt að þau leiðindi skuli finnast hjá fleirum en mannfólkinu.
Stóð við loforð mitt og fór með fjölskylduna á ströndina. Fyrir utan okkur var eitt þýskt par með dætur sínar tvær...enda sandfok í meira lagi.
Þrammað var um götur borgarinnar ca.17 sinnum og borðað á sig gat oft á dag.
Garðar eignaðist "vini" og lærði að heilsa á "máli" hip-hop manna.
Vil ég þakka fjölskyldunni fyrir einkar ánægjulega, yndislega og viðburðaríka viku hér við Miðjarðarhafið!!!

Er nú hafið tíu daga útgöngubann þar til vinkonur okkar og stöllur Gudda og Tinna munu heiðra okkur með nærveru sinni 1.-8.apríl. Eitthvað segir mér að sú heimsókn verði með aðeins öðrum áherslum en sú sem var að ljúka.
á þeim tíu dögum sem eru þar til bærinn verður málaður rauður verður keppst við að skrifa sem flest orð í minni elskulegu, elskulegu ritgerð.


hrútur:

Gaman að því hversu stjörnuspáin mín á mbl.is seinustu daga hefur verið mjög nærri sannleikanum. Það ætti þó ekki að koma á óvart þar sem öll vitum við að mikil speki og stjörnukortalesning liggur á bak við hverja og eina stjörnuspá sem birt er á þeim ágæta moggavef.

ný sleginn tíkall

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég óslösuð og í heilu lagi, hnéið vel rispað og pínu bólgið, kom í veg fyrir jógaástundun í morgun en annars eins og ný sleginn túskyldingur.
Rigning í dag svo það er lítið annað að gera en sitja inni og drita niður eins mörgum orðum á blað og ég kem við því ekki verður neitt skrifað næstu vikuna, verð allt of upptekin að vera í sexára leik.

jamm og já

Ákvað að taka Finn á þetta og blogga bara á tveggja vikna fresti, kanna hvort ég fengi ekki örugglega svona 13 komment eins og hver færsla hjá honum. Svo var ekki.
Sinfoníutónleikarnir voru virkilega góðir sem og morgunkaffið mitt upp á torgi.
Þessa vikuna hef ég afkastað 4 síðum af 25 í ritgerðinni sem þykir nokkuð gott miðað við að í dag og í gær var 20c og heiðskýrt.
Stórfjölskyldan mætir á svæðið eftir sléttan sólarhing, tilhlökkunin er í hámarki enda komnir góðir þrír mánuðir síðan seinast. Daskrá næstu viku verður 6ára miðuð þar sem stefnan verður tekin á dýragarðinn, vatnsdýrasafnið (aquarium), borðaðar kökur og ís í kílóavís og popp og kók þegar búið er að hátta. Því miður spáir ekki 20c og sól en ég lofaði því víst í desember að það yrði farið á ströndina en ekki var tekið fram í hverskonar fatnaði svo ég ætti að geta staðið við það.
Tók góða stungu á tröppum tónleikahússin seinnipartinn. Sama hvað má segja um elsku frakkana þá eru þeir nú hjálplegir þegar á þarf að halda. Maður í símanum, ung kona í taugaáfalli og gömul hjón stóðu í góðum hnapp yfir mér og slógust um hver ætti að fylgja mér heim. Tókst að staula út úr mér á minni afbargðs góðu frönsku að ég byggi nú bara í næstu götu svo þegar gamli karlinn var búinn að gefar mér eitt af (vonandi ónotuðu) snýtubréfum sínu til að setja á ansi illa leikið hnéið staulaðist ég heim á leið. gömlu hjónin röltu þó í hægðum sínum á eftir mér bara svona til öryggis. Konan í apótekinu ætlaði að selja mér allt sem til var í hillunum en ég lét mér nægja stóran góðan plástur.
Fyrsta viðbrögð míns elskulega sambýlings var að skella upp úr og spyrja hvort einhver hefði séð mig detta. Svona er nú gott að eiga góða að.

24ára eða 6tug?

Upplifi sjálfa mig (og Finnur held ég líka) æ oftar sem gamla sál í ungum líkama. Fórum á barinn í gær þar sem var skífuþeitir að spila tónlist, fína tónlist, hún var bar allt of hátt styllt og engin leið til að halda uppi samræðum. Finnur sagði að ég væri að misskilja, fjörið byrjaði fyrst þegar tónlistin væri orðin svo há að ekki væri hægt að halda uppi samræðum með góðu móti. Samþykkti að fá okkur "one for the road" á leiðinni heim með því skilyrði að ég fengi að fara heim að sofa kl.01. Kom í ljós að hverfispubbinn var opinn til 02 vegna þess að það var 29.febrúar og var því að sjálfsöðgu setið og rabbað við fótboltabarþjóninn til lokunnar. Var það ágætis skemmtun og lagðist ég á koddann 2:30 sátt og sæl með kvöldið. Blótaði því þó í sand og ösku þegar ég mætti í jóga kl.10 í morgun og hét því að drekka aldrei fleiri en eitt vínglas og fara ekki seinna að sofa en 23, það væri ekki þess virði að fórna yndislega heilsubætandi powerjóganu fyrir "soralífið" á nóttunni. Ætli það loforð endist þó lengur en fram að næstu helgi, það er víst ekki inn að farað sofa kl.23 og enda missir maður þá af öllu fjörinu á ölstofum bæjarins og það er dáldið púkó.
Eftir ágætis lasagnemáltíð var kvöldið í kvöld þó tekið í modelbyggingu og sófaráðleggingar. Nú er klukkan að nálgast 01 og ekki seinna vænna að skríða á dýnuna enda á ég miða á sinfoníuna kl.10:45 í fyrramálið. Sambýlingur minn og Haukur bróðir eru sammála um að ég hagi mér eins og 60 en ekki 24ára og 46 vikna í mekka bóhemismans í suður Frakklandi. Gæti þó ekki hugsað mér betri sunnudagsmorgun (nema ef vera væri 300skrið í vesturbæjarlauginni), rölta mér upp á torg í sólinni, gæða mér þar croisant og kaffi áður en ég hlusta á undurfagra sinfoníutóna en meðal efnis er fyrsta sinfonía Beethovens og er gestaleikarinn 19 ára konsertmeistari að ég held frá Rússlandi.


Maður febrúarmánaðar

Af öðrum ólöstuðum langar mig að titla afa minn Þórð Hauk mann febrúarmánaðar. Eftir að hafa unnið sleitulaust í að skrá ættartal fjölskyldunnar í heilt ár, grafa upp upplýsingar um "týnda" ættingja í gegnum Íslendingabók, skjalasöfn, tölvupósta landa á milli og yfir kaffibollum auk þess að safna saman myndum af öllum skaranum þá kom bókin út á prennti fyrripart mánaðarins. Hef því miður enn ekki séð hana en hlakka mikið til að fletta í gegnum hana þegar ég kem á klakann og læra um skyldmenni mín í föðurætt. Óska ég afa innilega til hamingju með þetta verk.
Til að láta sér nú örugglega ekki leiðast eftir að hafa komið ársverkinu frá sér, svona á milli þess sem hann fer í sund, maraþon göngutúra, spilar golf og passar barnabörnin auk þess að sinna hinum ýmsu félagsstörfum þá ákvað afi að skella sér á matreiðslunámskeið og skylst mér að hann sé nánast búinn að yfirtaka eldhúsið hennar ömmu svo gaman hefur hann af pottunum og kryddunum. Hlakka ég einnig mikið til að koma í sunnudagsmat til afa þegar ég kem á klakann.
Þess má geta að afi verður 78 ára seinna á árinu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband