Færsluflokkur: Lífstíll

Það er ekki bæði sleppt og haldið

Eftir maraþon jógatíma var hádegismaturinn: heimatilbúinn smoothie (ávaxta djús/grautur) með banana, mango, appelsínu og engifer, rúgbrauð með hvítlaukssmurosti og grænt sallat með olívum. I love it. Nú gæfi ég alla vinstri höndina og hálfa hægri fyrir að komast í vesturbæjarlaugina, synda nokkra ferðir og skella mér síðan í pottinn og gufuna og síðan aftur í pottinn. Á heimleiðinni kæmi ég svo við í Melabúðinni og keypti í kvöldmatinn áður en ég rölti í ísbúðina og keypti mér barnaís með dýfu og nóa kroppi. Í raun er það vesturbæjarlaugin og fiskur í matinn 3x í viku sem ég sakna mest frá íslandi fyrir utan að sjálfsögðu áskæra fjölskyldu og vini sem ég vildi svo mikið getað knúsað vel og lengi, alltaf! Hér er ein risa stór sundlaug með köldum potti og eftir litla leit höfum við ekki enn fundið góðan fisk til að elda, held að Miðjarðarhafið sé bara of heitt til að gefa af sér góðan og ferskan fisk.

tangograutur

Erum um það bil komin inn í ungmennatangoklíku borgarinnar, Finnur fyrir að vera með efnilegustu tangoherrum sem sést hafa á gólfinu lengi, ég fyrir að flissa og vera kjánaleg þegar ég steig á tærnar á kennurunum. Eftir mjög svo gott og skemmtilegt kvöld er Finnur nú kominn með svuntuna á sig og stendur vígalegur við grjónagrautspottinum. skulum vona að það gangi betur en með brunarústirnar mínar hér forðum daga.

Marseille

Áttum ósköp ljúfa helgi í Marseille sem er um tveggja tíma akstur í austur átt héðan. Laugardagurinn var tekinn snemma og lékum við túrista dauðans með kort og myndavélar og þrömmuðum borgina upp í mitt í dásamlegu veðri. Vorum voða glöð þegar fimmfaldaafmælisteitinu sem okkur hafði verið boðið í um kvöldið var aflýst svo Finnur gat púzzlað og ég lesið Spirou teiknimyndasögur. í gær var svo farið út að borða með stórskiptinemafjölskyldu Finnst að tilefni afmæli hjónanna í seinustu viku og fékk ég um það bil bestu pönntuðu (heimatilbúnar eru í öðrum skala) pizzu sem ég hef smakkað, pesto-mozarella.
Áskotnaðist forlátur þrífótur mér til mikillar gleði og voru að því tilefni teknar aðeins 460 myndir á laugardag og sunnudag. mun ég setja inn sýniseintak við tækifæri.

allt skýjunum þremur að kenna

Þegar ég vaknaði í morgun var hálfskýjað og hitinn líklega ekki mikið meira en tíu gráður. Það þýddi aðeins eitt, ég varð að láta græna svefnsófan duga til heimildalesturs. Klukkan varð 11 og klukkan varð 12, klukkan varð 13 og klukkan varð 14. Jú ég hafði að vísu skrifað leiðbeinanda mínum langan tölvupóst og borið undir hana hugmyndir og hún svarað um hæl og var þar með komin með smá "feedback" á það hvernig ég á að fara að því að ákveða hvað í ósköpunum ég á að skrifa um því það er víst ekki nóg að lesa hverja bókina á fætur annarri og finnast það allt rosa áhugavert, ég verð að lokum að koma því aftur frá mér og vonandi með örlítið nýjan vinkil á eitthvað af því sem ég hef verið að lesa. Klukkan 14 hafði ég lesið hálfa tímaritsgrein, 7 blogg (þó ekkert innihaldslaust moggablogg að þessu sinni), kíkt inn á mbl.is ca 12 sinnum, skoðað lestarfjargjöld hingað og þangað, kannað hvað væri nýtt á fasteignavefnum, beðið eftir yfirlýsingu frá Villa sem aldrei kom af því að..., skoðað veðurspánna í öllum þeim borgum þar sem ég þekki einhvern og kíkt einu sinni enn inn á mbl.is. Þegar þar var komið við sögu voru fingurnir á lykklaborðinu orðnir svo loppnir og hitastig heilans líklega komið niður að frostmarki svo í stað þess að halda áfram að blekkja sjálfa mig ákvað ég að ná í mig hita með því að vaska upp fjallið í vaskinum, þurrka af snjónvarpinu og ryksuga höllina. Finnur tók að sér baðið.
Jógatíminn minn byrjar eftir 5 min svo það er nokkuð útséð með að ég verði sprikklandi og andandi næstu 90 min. ja kannski andandi...
Finnur verður að láta sér lynda grænmetissúpu með öllu í kvöld það er einfaldlega of kallt inni í íbúðinni okkar til að borða gnocci

spunatango

Skráðum okkur í einhverskonar spuna-leiklistarnámskeið í/hjá háskólanum í gær, eitt kvöld í viku. Einhver þröngsýnn gæti sagt að maður geti ekki leikið á frönsku ef maður talar ekki frönsku, það er kolrangt, ef þú getur ekki leikið á frönsku þá er útilokað að læra að tala frönsku. Taldi mig reyndar vera búna með leiklistarkvótann fyrir lífstíð en aldrei að segja aldrei, það er marg sannað að leiklistarfólk er það opnasta, afslappaðasta og skrítnasta fólk sem þú hittir hvar sem er í heiminum og því ætti þetta að vera óbrygðul leið til að kynnast heimamönnum og vonandi stækka orðaforðann smá í leiðinni.
Þegar á skráningaskrifstofuna var komið tókst mér að sannfæra Finn um að koma með mér á byrjendanámskeið í tango, eitt kvöld í viku. Ég hef mjög gott að því að styrkja þau fáu undistöðuatriði sem ég lærði fyrir tveimur árum og vonandi lætur Finnur heillast af þessum magnaða seið sem tangoinn er, svo ekki sé talað um að hver sá karlmaður sem kann svo mikið sem þrjú skref í tango ávinnur sér mjög mörg stig í styrkleikalista karlmanna á lausu enda nýr vettvangur fyrir ný kynni...say no more

Ósköp líst mér annars illa á veðrið á ykkur þarna fyrir norðan, alltso lesendur sem búsettir eru rétt fyrir sunnan norðurpólinn, er ykkur ekkert farið að leiðast þetta elskurnar mínar? Vorið virðist vera búið að stimpla sig inn hér við Miðjarðarhafið en ekkert lát er á sólinni og hækkandi hitatölum veit ekki hvar þetta endar, kannski með því að ég fái eins og þrjár frekknur til tilbreytingar.

Förum til Marseille seinnipartinn og ætlum að dvelja þar fram á sunnudag hjá skiptinemafjölskyldu Finns

Góða helgi og munið nú að setja á ykkur húfu


janúarmyndir

Ekki laust við að það sé við hæfi að skella inn nokkrum janúarmyndum hér til hliðar þar sem febrúar er jú genginn í garð í öllu sínu veldi

upphitun

Ótrúlegt að árið 2008 hafi Frakkar, sem eru jú bestir og klárastir í öllu, ekki fattað hversu mikið þeir geta sparað í gaskostnað og upphitun með því að vera með tvöfalt gler og þétta glugga. Undanfarna viku hefur verið talsvert hlýrra fyrir utan gluggann okkar en hérna inni í kotinu, þó hefur hitareikningurinn farið langt yfir kostnaðaráætlun. Held það væri góður bransi að stofna tvöföldungluggafyrirtæki.

helgin

Helgin hefur verið mjög góð þó svo að prinsinn á hvíta hestinum virðist ætla láta bíða eftir sér. Það þykir mér þó ansi ósanngjarnt í ljósi þess að Finnur vann alla fjóra backamonleikina sem við spiluðum í gærkvöldi, held að botninum sé náð þegar maður/kona er bæði óheppin í ástum og spilum á 26.aldursári. Skelltum okkur á magnaða tango nuevo tónleika í óperunni á föstudagskvöldið þar sem einungis voru spiluð verk eftir Piazzolla. Held ég verði að fara að dusta rykið af tangoskónum og grafa upp maison de tango sem mér skilst að sé einhversstaðar í úthverfi borgarinnar. Tel þó litlar líkur á að prinsinn býði mín þar en meðalaldur gesta á tónleikunum hefur verið um 55 ára.
Að loknum tónleikum var tekinn einn pöbbahringur áður en haldið var heim í koju.
Held maður þurfi að vera í mjög ákveðnu skapi til að drífa sig af stað í grímubúningateiti þar sem maður þekkir ekki sálu. Við vorum ekki í þannig skapi í gærkvöld og "beiluðum" því á öllum sem við þekkjum ekki. Létum þó ekki þar við sitja heldur skelltum okkur á Shakespeare og tókum þar fyrr greinda backamon leiki. Á heimleiðinni rákumst við á hóp kunningja okkar sem allir höfðu runnið á lyktina af ókeypis víni sem stóð gestum nýjasta barsins í hverfinu til boða. Þegar klukkan sló eitt var öllum hent út eins og vera ber hér í bæ en það leið þó ekki á löngu þar til eigandinn kom út til okkar sem eftir stóðum og bauð okkur að koma aftur inn og drekka restarnar af víninu sem hafði verið keypt fyrir kvöldið. Það reyndust vera ansi margir lítrar og þegar ég læddi mér heim á leið kl.03 sá ekki högg á vatni.
Finnur brilleraði í eldhúsinu í gærkvöldi og áðan sameinuðm við sambýlingarnir krafta okkar og skelltum í nokkra gómsætar pönsur.
Já, bara hin fínasta helgi verð ég að segja

draumráðningar

Dreymdi í nótt að ég hefði unnið fúlgufjár í peningakassa. Fyrir hádegi var ég sannfærð um að það væri fyrirboði dauða míns í þvottahúsinu. Það var á þeim tímapunkti sem ég var um það bil að setja tvær vélar í gang en þá kom inn kona og sagði að önnur þeirra væri biluð. Þegar ég ætlaði að loka hinni vantaði á hana haldfangið sem hefði komið í veg fyrir að ég gæti opnað hana aftur. Eftir að hafa farið tvisvar í kjörbúðina og einu sinni í sjoppuna til að fá skiptimynt horfði ég á þrjá þurrkara vinna í 30min hver og rogaðist síðan heim með fangið fullt af hálfrökum þvotti. Er enn á lífi og við hestaheilsu svo vonandi að peningadraumur minn sé bara fyrir góðri helgi og kannski prinsi á hvítum hesti eða eitthvað.

gullnáma

Held að á eftir fasteignabraski og bankastjórastól sé besta leiðin til að eignast pening sé að opna lélegt almenningsþvottahús. Þvottahús þar sem ekki er hægt að skipta seðli í klink svo oft þarf að byrja á því að fara í sjoppuna við hliðina og kaupa eina kók eða súkkulaðistykki til að fá skiptimynt, þvottahús þar sem ein vél kostar minnst 3,50evrur (ca.300kr) og þar sem að vélarnar eru mislélegar þá kemur þvotturinn gjarnar sápulöðraður út og þá á eftir að setja hann í lélegustu þurrkara á norðurhveli jarðar þar sem 5min kosta 50cent (ca 40kr) og ef sængurfötin eiga að vera orðin þurr fyrir háttatíma má gera ráð fyrir 40-50min í þurrkaranum.
Þarf að hlaupa, vélin er að klárast og á eftir að fara í sjoppuna til að eiga pening í þurrkarann.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 408

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband