Ætli sloppar komist einhverntíman í tísku svona eins og kraftgallar og lopapeysur?

Segi svo að það hafi ekki verið skynsamlegt að taka náttsloppinn góða með, er strax farinn að sakna hans en ég ákvað að kasta af mér kjúklingaklæðunum í morgun og fara í siðsamlegan klæðnað fyrir hálffríska konuna. Er allavega nógu frísk til að hafa getað loksins náð að koma tengli yfir á vangaveltur sambýlismanns míns inn á þessa síðu mína og hvet ég ykkur eindregið til þess að kíkja þangað yfir, ekki svo langt að fara, þurfið ekki einu sinni að fara í jakka og getið verið á inniskónum. Þó svo mér líði kannski ekki eins og nýslegnum túskildingi þá ætla ég að láta mig hafa það að mæta í frönsku á eftir, hlakka nánast til eins og barn til jólanna. Stend í einhverskonar barnslægri trú um að þetta námskeið verði lykillinn að öllum mínum vandamálum hérna úti. Ummmm, kannski ekki mjög skynsamlegt en börn eru jú ekki alltaf mjög skynsöm er það?
Sýndist nágrannar mínir vera að borða hádegismat úti á svölum áðan, það er gott, þá verður súrefnissjokkið ekki eins mikið þegar ég hætti mér út úr holunni minni á eftir.

hvað er krákan á þakinu á móti að æsa sig?

Jæja, nú er nóg komið af eimd og volæði á þessari bloggsíðu, heilsan fetinu skárri í dag en í gær, gat meira að segja staulast fram úr rúminu/sófanum og fengið mér kínóagraut í morgun, það er nú góðs viti jafnvel þó ég hafi því miður ekki náð að komst í tíma í almennri bandarískri mannfræði eins og mig langaði svo mikið. Ætla mér þó að mæta í fyrsta frönskutímann annað kvöld sama hvort það verði úr rúminu eða i rúminu, það er aldrei gott að missa af fyrsta tímanum í neinu! Leitt til þess að hugsa að moskítóflugan sem beit mig í nótt mun vera illa haldin af flensu næstu daga.
Það er ekki alveg ljóst en í stigaganginum eru 4-6 íbúðir og virðist meðalaldurinn vera um 25 ára og væri því tilvalið að halda stigagangspartý. Erum nokkuð viss um að gæinn sem býr fyrir neðan okkur sé kominn af ríkum ættum miðað við skóna sem hann gengur í og skellihnöðruna sem hann keyrir á og auk þess er hann alltaf með fólk í heimsókn, yfirleitt af hinu kyninu og eins erum við viss um að Toni sem býr á móti okkur sé fjöldamorðingi frá Luxembourg en stelpurnar sem búa í húsinu á móti hafa ekki sést síðan þær fóru í heimsókn til Toni.
Hafið þið einhverntíman séð mús hlaupa niður háar steintröppur, dauða nær af hræðslu, tröppu eftir tröppu pombsar hún niður og fær að öllum líkindum smávægilegan heilahristing í hverri lendingu af "svip" hennar að dæma. Dálítið kómísk sjón. Ég held hún búi í kjallaranum með hjólunum og innkaupakerrunni. Finnst það bara ansi notaleg tilfinning að hafa svona sameiginlegt stigagangsdýr...svo framarlega sem þetta hafi ekki verið stóra frænka músarinnar. Sé eftir því núna að vera ekki duglegri að læra heima í "mús 103"

Cultural Stúdentar í Montpellier

Veit ekki hvernig það er í öðrum frönskum borgum en hér í Montpellier er gert svakalega vel við Stúdenta. Ég er komin með í hendurnar svokallaðan "pass culture" sem kostaði mig heilar 9evrur en veitir mér afslátt að tveimur "hip" kvikmyndahúsum þar sem sýndar eru bæði klassískar franskar myndir sem og erlendar myndir á sínum original tungumálum, slatta af leikhúsum, sinfoníunni og hinum ýmsu tónleikum og uppákomum. Almennt miðaverð í bíó er 7 evrur en ég þarf einungis að borga 3.70 gegn framvísun kortsins og 5 evrur á allar hinar ofangreindar uppákomur. Stefni á að vera ansi öflug í menningarlífinu í vetur.
Einnig fá stúdentar afslátt í almenningssamgöngur, bókabúðir og örugglega ýmislegt fleira.
Finnst að Reykjavíkurborg ætti að taka sér þetta til fyrirmyndar...ég veit það er orðið frítt í strætó og hálfnað verk þá hafið er en það má gera enn betur.

sokkar eða sokkbuxur...kannski bara bikiní?

Ég held ég þurfi kannski að fara og kaupa mér sokka. Ég veit fátt betra en að ganga í pilsum/kjólum og berfætt en þeir eru jú teljandi á fingrum annarrar handar þeir dagar sem það er hægt á Íslandi farsælda fróni. Hér við Miðjarðarhafið er reyndin önnur og hef ég verið berfætt síðan ég lennti á flugvellinu. Nú hinsvegar er örlítið farið að hausta og mun ég brátt þurfa að fara að troða mér í hel... sokkabuxurnar. Nú eða fara að ganga í buxum og sokkum en þar sem ég tók aðeins með mér tvenn sokkapör þá duga þeir skammt inn í vikuna. Þó kann ég best við kjólana svo ætli hel....sokkabuxurnar verði ekki ofan á.
Annars hef ég ekki orðið svona lasin svo langt sem rúmlega 24 ára minni mitt nær, kannski muna foreldrar mínir betur! Þetta er sú allra ömurlegasta pest sem ég hef fengið, ojjj. En svo við förum í smá Pollíönuleik þá er nú fínt að ég sé í svona fáum tímum í skólanum og enn sem komið er er ég ekki búin að missa af neinu heldur bara geta verið veik í friði. Hinsvegar langar mig mjög í tíma í klassískri mannfræði í fyrramálið og að sjálfsögðu í besta eða versta frönskutímann á fimmtudag. En allavega, þar sem ég lá lasin á dýnu minni til 5:30 í morgun og reyndi að sofna þá lærði ég það að Montpellier er eins og New York, borgin sem aldrei sefur. Það var nánast eins og það væri karnival hér í næstu götu, á mánudagsnóttu, bongotrommur, gítarar og líklega hópur af fólki sem talaði mjög hátt.
Nú er sólin aftur farin að skína eftir nokkra skýjadaga svo hún hlýtur að flytja með sér fullt af vítamínum og góða heilsu.

kjúklingurinn


fæ ég far?

Nú er það spurningin, ætli síðasti hópurinn af fjórum sé besti hópurinn eða versti hópurinn? Niðurstöður úr stöðuprófinu í frönsku voru að koma og mun ég vera alla fimmtudaga,18:15-20:15, fram að jólum. Kennt er mánudaga-fimmtudaga, sem sagt fjórir hópar en ekkert kom fram á hvaða stigi frönskukunnáttu hver hópur væri. Spennandi. Hlakka mjög til, bæði að læra frönskuna almennilega og eins vonandi að kynnast einhverju fólki. Annars er ég algjörlega á því að það eigi að breyta skólakerfinu á Íslandi. Hef alls ekkert á móti mér yngra fólki, þó ég viðurkenni að ég hef lengi verið haldin svokallaðri ofsahræðslu í garð unglinga, en þegar meðal aldur skiptinemana er 21 árs og einhverjir eru einungis 19 ára þá kannski er orðið lítið sem við eigum sameiginlegt annað en að vera skiptinemar og það kemur manni bara svo og svo langt í vinskapsmyndun. Ef skólakerfið á Íslandi væri eins og virðist vera í lang flestum ríkjum í heiminum, það er að segja, nemendur byrja 18 ára í háskóla en ekki 20 ára þá held ég að það yrði strax mun auðveldara fyrir íslenska nema, bæði menntaskóla-og háskólanema að fara sem skiptinemar.
Annars hefur haustflensan tekið sér far með norðanvindinum suður á bóginn því ég bókstaflega steinligg í bælinu, undirlögð af ýmiskonar flensuskít, mikið grín og mikið gaman. Get ekki einu sinni plata Finn út á videoleigu því til þess að taka mynd þarf maður að vera með franska kennitölu og guð má vita hvaða pappírum maður þarf að skila inn til þess að fá svoleiðis. Jæja, maður þarf þó enga kennitölu til þess að lesa skáldsögur.

knús, knús og faðmlag

Ég verð að segja (og nú veit ég að mun heyrast hljóð úr horni, allavega frá vinkonu minni Sölku) að ég sé lítið sem ekkert karlmannlegt við íþróttina rugby en heimsmeistaramót þessarar "karlmannlegu" íþróttar stendur nú sem hæst hér í Frans. Jújú, þeir eru flestir rosalega stórir og með mikla vöðva og það er frekar "mans like" þegar þeir hlaupa gríðalega hratt upp völlinn en þar með er það upp talið og ofan greind atriði eiga einnig við um íþróttir eins og handbolta, fótbolta og jafnvel frjálsar íþróttir og geta þær verið mjög karlmannlegar (og kvenlegar að sjálfsögðu). En þegar þessir risastóru vöðvatröll knúsast og faðmast, toga í treyjur hvors annars og lyfta hvorum öðrum upp eins og klappstýrur, allt saman í mjög svo undarlegum buxum með rassbót, líklegast til að koma í veg fyrir að þær rifni á viðkvæmum stöðum í hita leiksins, er fullkomlega allur sjarmi farinn af þeim.
Annars held ég með Tonga á þessu heimsmeistaramóti vegna þess að þar ganga allir í svo skemmtilegum bustamottum.

???

Spurning vikunnar á 5, rue du Chapeau Rouge:
Er óhollur matur óhollari/verri fyrir þig en hollur matur?

The end...

Í gærkvöldi lenti í því að vera aðal/aukaleikari í mjög klakksískri "kvikmynd". Hafði rölt um götur borgarinnar í dágóðan tíma, fremur ósátt við lífið, tilveruna og sjálfa mig eins og kemur fyrir alla endrum og eins og var djúpt inn í eigin hugsunum. Tillti mér á bekk við einhverskonar smátorg/garð og hélt áfram að reyna að koma hugsunum, hugmyndum og pælingum í réttar skúffur inni í höfðinu þegar ég heyri þessa undursamlegu tóna. Ég leit upp og voru þar mættir tveir félagar, nokkrum metrum frá mér, annar með saxafón í hönd og hinn sitjandi með gítar í fanginu. Þeir stóðu beint undir þessum fallegu ljóskerum sem eru út um alla borg en ég sat í skugga af stóru tré. Það var eins og tíminn stæði í stað og allt í einu voru allar skúffur lokaðar og tárin horfin og engar aðrar hugsanir komust að nema hvað þetta væri ótrúlega falleg mynd, þessir tveir ungu menn með hljóðfærin sín hér í gamla bænum við Miðjarðarhafið. Þetta minnti mig dálítið á kafla í bókinni "Kæri herra Guð þetta er hún Anna", já, eða gamla, klassíska kvikmynd. Svona var þetta örugglega hátt í klukktíma og þrátt fyrir að vera illa klædd í kaldri næturgolunni vildi ég ekki labba út úr rammanum. Þeir félagar höfðu tekið eftir mér og spurðu þegar þeir fóru hvort ekki allt væri í lag. "oui" sagði ég og brosti mínu blíðasta. Ef þetta hefði verið alvöru bíómynd og ég kunnað frönsku hefði ég gefið mig á tal við þá, fylgt þeim fram eftir kvöldi (þeir voru að fara eitthvert annað að spila), við orðið rosa góðir vinir og ég endað með að giftast öðrum þeirra, saxafónleikaranum, við eignast börn og ketti og öll lifað hamingjusöm til æviloka. En vegna þess að þetta var ekki alvöru kvikmynd og af því að ég kann ekki frönsku þá óskaði ég þeim bara góðs gengis og þeir hurfu út í myrkrið. Ég hinsvegar rölti á írska barinn og horfði þar á fyrri hálfleik í rugby, England-Tonga en það þar sem það stangaðist verulega á við fyrrnefnda kvikmynd þá rölti ég heim á leið, til koju og inn í draumalandið. Var þó vonsvikin þegar ég vaknaði í morgun þar sem að þeir félagar birtust mér ekki í draumförum mínum í nótt eins og ég hafði vonast eftir heldur bara eintómst stress vegna fyrirætlaðrar skiptinemadvarlar í Finnlandi og átti ég eftir að mála baðherbergið heima hjá Pabba og Þórhildi svart áður en ég gæti farið, með pínu, pínu lítillri málningarúllu. Náði þó ekki að klára að mála því ég rétt náði út á flugvöll, klukkutíma áður en vélin fór í loftið. Fékk þó aldrei að vita hvernig mér farnaðist af í Finnlandi, líklega en ég get ekki ímyndað mér að það gengi mjög vel.
Er farin í þvottahúsið.

musica

Er að spá hvort ég eigi að láta verða að því að kaupa mér mér ipod svo ég geti hlustað á music á öllum göngunum mínum og tramferðunum um borgina. Og nú spyr ég eins og fávís kona, er nóg að hann sé 4GB (einhver nýr ipod nano) eða verður hann að vera 8GB svo hann fyllist ekki strax? Gæti ekki sagt ykkur hver er munurinn á GB og kú hvað þá 4GB og 8GB...

soðið pasta, pasta í ofni, pasta á pönnu...

Morgunmatur:
Kínóagrautur (grautur eins og hafragrautur nema nem svokölluðum kínóaflögum) með hrísgrjónamjólk og agave sýrópi.

Hádegismatur:
Smoothie a la Hildur; ávaxtamix, afgangur af kínóagrautnum, ávaxtadjús, sojajógurt og dash af agavesýrópi.
Camebert og hráskinka (það er ekki hægt að búa í Frakklandi og vera grænmetisæta)

Kvöldmatur:
Tilfallandi úr ísskápnum, gjarnan pasta í einhverskonar formi með ýmiskonar meðlæti. Þó eru stundum undantekningar, svona eins og kjúlli, pakkasúpur og samlokur.

Það væri samt gaman að eiga pönnu sem virkar og eldfastmót, svona til að hafa aðeins meiri fjölbreytileika í máltíðunum. Væri til dæmis hægt að hafa pasta í ofni.


suð-suð vestan...

Í gær dró ég fram dúnsængina mína en ég er búin að sofa með 1.000kr rúmfatalagers svefnpoka síðan ég kom. Í morgun fór ég í síðbuxur og peysu og held ég muni jafnvel fara í sokka áður en ég fer út á eftir. Það er jú skýjað.
Var að lesa á mbl.is að Flugfélag Íslands hefur ekkert flogið innanlands það sem af er degi vegna einhvers storms eða hvassviðris sem ríkir um allt land...

Velkomin til ársins 1980...ætli flestir hafi þó ekki notað ritvélar þá...segjum frekar svona 1940

"Hérna sjáið þið muninn á einföldu og einu og hálfu línubili (kennari réttir upp blað þar sem bæði hefur verið skrifað með einföldu og 1 og 1/2 línubili og sýnir nemendum á 3 ári í mannfræði við 26.besta skóla Evrópu samkvæmt einhverjum lista). Ég ætla því að biðja ykkur um að skrifa verkefnið með einu og hálfu eins og er hérna (bendir þar sem eitt og hálft línubil er) svo ég geti sett inn leiðréttingar inn á milli línanna og einnig bið ég ykkur um að hafa letrið 12 punkta, þá er það ekki of stórt og ekki of lítið, svona eins og er hér (bendir aftur á blaðið)"
Í þeim tímum sem ég hef mætt í, sem eru að verða annsi margir og fjölbreittir, hef ég aðeins séð einn nemanda nota fartölvu í tímum (í HÍ er oftast líklega um 80% nemenda með tölvur í tímum). Hér í borg fyrirfinnast ekki A4 línustrikaðar gormabækur og nota allir nemendur einstök blöð eða sérútbúin tvöföld blöð sem eru eins og tvö A4 blöð föst saman (svona eins og maður notaði í 4.bekk í barnaskóla) og skrifa á þau eins og þeir eiga lífið að leysa í tímum og verður það til þess að litlar sem engar umræður skapast því enginn má missa tíma þegar hann telur sig þurfa að handskrifa upp orðrétt það sem kennarinn segir. Einnig virðist það vera skylda í flestum greinum að skila öllum verkefnum handskrifuðum og þegar beðið er um 1bls er sem sagt átt við eitt svona sérútbúið tvöfalt blað eins og líst var hér að ofan, skrifað á allar fjórar blaðsíður í hverja línu. Reikna með að kennarar við Paul Valéry eigi sér hvorki fjölskyldur, hunda né áhugamál því að fara yfir 50 svoleiðis verkefni hlýtur að taka skrambi langan tíma.
Nú þegar kennarinn var búin að útskýra fyrir nemendum hvað væri times new roman, 12 punkta letur og eitt og hálft línubil hófst sjálf kennslustundin. Nemendum var úthlutað sérútbúið leshefti vandlega bundið inn og voða fínt. Ég fann hvernig stelpan við hliðina á mér, sem var einmitt sú sama og hafði ekki skilið "do you want to get coffee" byrjaði að svitna...allar greinarnar í heftinu voru á ensku!!! Það hlakkaði pínu í púkanum inn í mér, nú skyldi hún fá að finna fyrir því hvernig mér líður í hverjum einasta tíma, já og svona bara almennt þegar ég stíg út úr litlu íbúðinni minni og út í hinn franska heim. Hún þurfti þó ekki að óttast alveg svona mikið. Næstu tvær heilu klukkustundirnar fóru nefnilega í það að fara í gegnum heftið, kennarinn og nemendur saman. Kennarinn, eldri kona sem augljóslega hefur búið vestanhafs af hreimnum að dæma, þýddi hvern einasta greinartitil, index og efnisyfirlit úr ensku yfir á frönsku svo elskulegir nemendur hennar, á að giska aldrinum 21-25 ára kepptust við að skrifa öryggisorðin góðu inn í greinaheftin sín.

Ætli Sarkozy kunni ensku?


Rachmaninoff

Vildi svo mikið geta farið og hlustað/horft á Víking vin minn spila 3.concert Rachmaninoff með sinfó í kvöld!!! Það er örugglega uppselt fyrir löngu en ef ekki þá ættuð þið að skella ykkur, það er dásamlegt að sjá hann spila og í kvöld mun snillingur spila snilld!

Hann á afmæl'í dag...

Garðar bróðir er 6 ára í dag og fær hann hér með RIIIIIIIISA knús og koss frá mér. Til hamingju með afmælið elsku bróðir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

fokk the system!

Eftir mikla leit að raspi og fisk að ósk afmælisbarnsins var ákveðið að láta steiktan fisk á pönnu með salt og pipar og steiktan lauk duga, auk soðinna kartaflna, allt mjög íslenskt fyrir Jeanne og Adrian. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort olli því, gjörónýta pannan eða dýri fíni fiskurinn sem við vitum ekki ennþá hverrar tegundar var en það endaði með því að boðið var upp á hálfgerðan plokkfisk með lauk og mauksoðnar kartöflur með. Það var hálfgert "crusial moment" þegar ég sá angistarsvipinn á Finni sem stóð yfir pönnunni og horfði á afmælismatinn sinn umbreytast á svipstundu og ég sagði að það væri bara tvennt í stöðunni, annað hvort að panta pizzu eða leika leikinn til enda og láta gestina halda að maturinn ætti að vera nákvæmlega svona og ekkert öðruvísi. Þar sem við Finnur erum svo mikilir leikarar þá var ákveðið að setja upp grímur tvær og skella þessu á borðið. Reyndist fiskikássan ljómandi góð og voru gestirnir að ég held bara mjög ánægð með íslensku veisluna sem var toppuð af mjög svo ljúffengum pönnukökum a la Finnur. Læt myndir úr veislunni og matseldinni fylgja með hér til hliðar.

Keypti fyrstu skólabókina mína í dag, einskonar frankofónískar bókmenntir, það er að segja, skrifaðar á frönsku en af fólki sem kemur upprunalega frá gömlu nýlendum Frakka. Skildi formálann og fyrstu blaðsíðuna en eftir það var hugurinn kominn einhvert langt í búrtistan. Ákvað sem sagt að fara að ráðum góðs vinar sem hann gaukaði að mér þegar ég fór "að njóta ekki alls sem skólinn hefur upp á að bjóða heldur reyna að ná öllu út úr skólanum sem ég mögulega get". Þannig er ég búin að skrá mig í þennan bókmenntafræðiáfanga og lýst ágætlega á, þ.e.a.s ef mér tekst að komast yfir 2. blaðsíðuna í þessari einu bók af mörgum sem á að lesa. Eftir mikið hum og ha taldi ég svo í mig kjark í morgun og ætlaði að mæta í "photo"tíma en það tókst ekki betur en svo að enginn var inn í kennslustofunni þar sem tíminn átti að vera, galtóm svo ég fór aftur heim. Það var kannski ágætt því eftir að hafa talið í mig tvöfaldan kjark mætti ég eftir hádegi í eitthvað sem ég vissi ekki alveg hvað var en reyndist svo vera kennsla í illustrator og photoshop. Þarna var ég búin að finna nákvæmlega það sem ég er búin að vera að leita að, sitja við tölvu, ekki stöðugur fyrirlestur í 3 tíma heldur meira verklegt, vera með kennslu á skjávarpa og eitthvað sem mig hefur alltaf langað til að læra en aldrei gefið mér tíma í!!!Fullkomið!!!...ekki aldeilis. Þegar kennarinn fattaði að ég var að mæta í fyrsta skiptið fór hann að spyrja mig spjörunum úr og það kom í ljós að ég gæti alls ekki tekið þennan áfanga og þá ekki heldur "photo"áfangann þar sem ég er ekki skráð sem nemandi í art spectacle heldur í mannfræði. Ég var næstum farin að gráta í miðri kennslustofunni svo vonsvikin var ég. Pakkaði niður dótinu mínu og fór.

Þetta ætlar ekki að ganga alveg eins og ég hafði gert ráð fyrir, hvað varðar skólann og kynnast fólki en ég er þó engan veginn af baki dottinn og er farin að upphugsa aðrar leiðir til þess að læra, læra frönsku og mannfræði og að kynnast fleira fólki. Vil þó ekki varpa þeim fram hér og nú heldur velta fyrir mér kostum þeirra og göllum áður en aðrir fara að láta í ljós skoðanir sínar á þeim.

Talandi um fólk. Lagðist á koddann kl.5 í morgun eftir að hafa setið með hóp af snilldarfólki, allstaðar að úr heiminum, frökkum, kanadabúa, írum, svíum, nýsjálending o.fl, og spjallað um heima og geima og sötrað mjöð úti á einu torgi borgarinnar (því eina sem lögreglan er ekki með næturvörslu á). Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt og mikil upplyftisprauta í annars mjög vinafáu umhverfi.
Þetta gaf mér þó aðeins 4 tíma svefn er ég því að hugsa um að láta gott heita núna og drífa mig á stefnumót við Óla Lokbrá vin minn á dýnunni minni í nýja "herberginu" mínu en það er útbúið úr sefnsófabaki, tveimur veggjum og IKEA hillu, fyrirtaks herbergi.

Góða nótt


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 408

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband