Færsluflokkur: Lífstíll

suð-suð vestan...

Í gær dró ég fram dúnsængina mína en ég er búin að sofa með 1.000kr rúmfatalagers svefnpoka síðan ég kom. Í morgun fór ég í síðbuxur og peysu og held ég muni jafnvel fara í sokka áður en ég fer út á eftir. Það er jú skýjað.
Var að lesa á mbl.is að Flugfélag Íslands hefur ekkert flogið innanlands það sem af er degi vegna einhvers storms eða hvassviðris sem ríkir um allt land...

Velkomin til ársins 1980...ætli flestir hafi þó ekki notað ritvélar þá...segjum frekar svona 1940

"Hérna sjáið þið muninn á einföldu og einu og hálfu línubili (kennari réttir upp blað þar sem bæði hefur verið skrifað með einföldu og 1 og 1/2 línubili og sýnir nemendum á 3 ári í mannfræði við 26.besta skóla Evrópu samkvæmt einhverjum lista). Ég ætla því að biðja ykkur um að skrifa verkefnið með einu og hálfu eins og er hérna (bendir þar sem eitt og hálft línubil er) svo ég geti sett inn leiðréttingar inn á milli línanna og einnig bið ég ykkur um að hafa letrið 12 punkta, þá er það ekki of stórt og ekki of lítið, svona eins og er hér (bendir aftur á blaðið)"
Í þeim tímum sem ég hef mætt í, sem eru að verða annsi margir og fjölbreittir, hef ég aðeins séð einn nemanda nota fartölvu í tímum (í HÍ er oftast líklega um 80% nemenda með tölvur í tímum). Hér í borg fyrirfinnast ekki A4 línustrikaðar gormabækur og nota allir nemendur einstök blöð eða sérútbúin tvöföld blöð sem eru eins og tvö A4 blöð föst saman (svona eins og maður notaði í 4.bekk í barnaskóla) og skrifa á þau eins og þeir eiga lífið að leysa í tímum og verður það til þess að litlar sem engar umræður skapast því enginn má missa tíma þegar hann telur sig þurfa að handskrifa upp orðrétt það sem kennarinn segir. Einnig virðist það vera skylda í flestum greinum að skila öllum verkefnum handskrifuðum og þegar beðið er um 1bls er sem sagt átt við eitt svona sérútbúið tvöfalt blað eins og líst var hér að ofan, skrifað á allar fjórar blaðsíður í hverja línu. Reikna með að kennarar við Paul Valéry eigi sér hvorki fjölskyldur, hunda né áhugamál því að fara yfir 50 svoleiðis verkefni hlýtur að taka skrambi langan tíma.
Nú þegar kennarinn var búin að útskýra fyrir nemendum hvað væri times new roman, 12 punkta letur og eitt og hálft línubil hófst sjálf kennslustundin. Nemendum var úthlutað sérútbúið leshefti vandlega bundið inn og voða fínt. Ég fann hvernig stelpan við hliðina á mér, sem var einmitt sú sama og hafði ekki skilið "do you want to get coffee" byrjaði að svitna...allar greinarnar í heftinu voru á ensku!!! Það hlakkaði pínu í púkanum inn í mér, nú skyldi hún fá að finna fyrir því hvernig mér líður í hverjum einasta tíma, já og svona bara almennt þegar ég stíg út úr litlu íbúðinni minni og út í hinn franska heim. Hún þurfti þó ekki að óttast alveg svona mikið. Næstu tvær heilu klukkustundirnar fóru nefnilega í það að fara í gegnum heftið, kennarinn og nemendur saman. Kennarinn, eldri kona sem augljóslega hefur búið vestanhafs af hreimnum að dæma, þýddi hvern einasta greinartitil, index og efnisyfirlit úr ensku yfir á frönsku svo elskulegir nemendur hennar, á að giska aldrinum 21-25 ára kepptust við að skrifa öryggisorðin góðu inn í greinaheftin sín.

Ætli Sarkozy kunni ensku?


Rachmaninoff

Vildi svo mikið geta farið og hlustað/horft á Víking vin minn spila 3.concert Rachmaninoff með sinfó í kvöld!!! Það er örugglega uppselt fyrir löngu en ef ekki þá ættuð þið að skella ykkur, það er dásamlegt að sjá hann spila og í kvöld mun snillingur spila snilld!

Hann á afmæl'í dag...

Garðar bróðir er 6 ára í dag og fær hann hér með RIIIIIIIISA knús og koss frá mér. Til hamingju með afmælið elsku bróðir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

fokk the system!

Eftir mikla leit að raspi og fisk að ósk afmælisbarnsins var ákveðið að láta steiktan fisk á pönnu með salt og pipar og steiktan lauk duga, auk soðinna kartaflna, allt mjög íslenskt fyrir Jeanne og Adrian. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort olli því, gjörónýta pannan eða dýri fíni fiskurinn sem við vitum ekki ennþá hverrar tegundar var en það endaði með því að boðið var upp á hálfgerðan plokkfisk með lauk og mauksoðnar kartöflur með. Það var hálfgert "crusial moment" þegar ég sá angistarsvipinn á Finni sem stóð yfir pönnunni og horfði á afmælismatinn sinn umbreytast á svipstundu og ég sagði að það væri bara tvennt í stöðunni, annað hvort að panta pizzu eða leika leikinn til enda og láta gestina halda að maturinn ætti að vera nákvæmlega svona og ekkert öðruvísi. Þar sem við Finnur erum svo mikilir leikarar þá var ákveðið að setja upp grímur tvær og skella þessu á borðið. Reyndist fiskikássan ljómandi góð og voru gestirnir að ég held bara mjög ánægð með íslensku veisluna sem var toppuð af mjög svo ljúffengum pönnukökum a la Finnur. Læt myndir úr veislunni og matseldinni fylgja með hér til hliðar.

Keypti fyrstu skólabókina mína í dag, einskonar frankofónískar bókmenntir, það er að segja, skrifaðar á frönsku en af fólki sem kemur upprunalega frá gömlu nýlendum Frakka. Skildi formálann og fyrstu blaðsíðuna en eftir það var hugurinn kominn einhvert langt í búrtistan. Ákvað sem sagt að fara að ráðum góðs vinar sem hann gaukaði að mér þegar ég fór "að njóta ekki alls sem skólinn hefur upp á að bjóða heldur reyna að ná öllu út úr skólanum sem ég mögulega get". Þannig er ég búin að skrá mig í þennan bókmenntafræðiáfanga og lýst ágætlega á, þ.e.a.s ef mér tekst að komast yfir 2. blaðsíðuna í þessari einu bók af mörgum sem á að lesa. Eftir mikið hum og ha taldi ég svo í mig kjark í morgun og ætlaði að mæta í "photo"tíma en það tókst ekki betur en svo að enginn var inn í kennslustofunni þar sem tíminn átti að vera, galtóm svo ég fór aftur heim. Það var kannski ágætt því eftir að hafa talið í mig tvöfaldan kjark mætti ég eftir hádegi í eitthvað sem ég vissi ekki alveg hvað var en reyndist svo vera kennsla í illustrator og photoshop. Þarna var ég búin að finna nákvæmlega það sem ég er búin að vera að leita að, sitja við tölvu, ekki stöðugur fyrirlestur í 3 tíma heldur meira verklegt, vera með kennslu á skjávarpa og eitthvað sem mig hefur alltaf langað til að læra en aldrei gefið mér tíma í!!!Fullkomið!!!...ekki aldeilis. Þegar kennarinn fattaði að ég var að mæta í fyrsta skiptið fór hann að spyrja mig spjörunum úr og það kom í ljós að ég gæti alls ekki tekið þennan áfanga og þá ekki heldur "photo"áfangann þar sem ég er ekki skráð sem nemandi í art spectacle heldur í mannfræði. Ég var næstum farin að gráta í miðri kennslustofunni svo vonsvikin var ég. Pakkaði niður dótinu mínu og fór.

Þetta ætlar ekki að ganga alveg eins og ég hafði gert ráð fyrir, hvað varðar skólann og kynnast fólki en ég er þó engan veginn af baki dottinn og er farin að upphugsa aðrar leiðir til þess að læra, læra frönsku og mannfræði og að kynnast fleira fólki. Vil þó ekki varpa þeim fram hér og nú heldur velta fyrir mér kostum þeirra og göllum áður en aðrir fara að láta í ljós skoðanir sínar á þeim.

Talandi um fólk. Lagðist á koddann kl.5 í morgun eftir að hafa setið með hóp af snilldarfólki, allstaðar að úr heiminum, frökkum, kanadabúa, írum, svíum, nýsjálending o.fl, og spjallað um heima og geima og sötrað mjöð úti á einu torgi borgarinnar (því eina sem lögreglan er ekki með næturvörslu á). Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt og mikil upplyftisprauta í annars mjög vinafáu umhverfi.
Þetta gaf mér þó aðeins 4 tíma svefn er ég því að hugsa um að láta gott heita núna og drífa mig á stefnumót við Óla Lokbrá vin minn á dýnunni minni í nýja "herberginu" mínu en það er útbúið úr sefnsófabaki, tveimur veggjum og IKEA hillu, fyrirtaks herbergi.

Góða nótt


...

...eða jú annars, það væri frekar leiðinlegt. Held þetta sé góð leið til að kynnast fólki í svipaðri aðstöðu, mállausum útlendingum, langt í burtu frá foreldrum sínum og kisum. Gætum kannski fengið okkur kaffi saman og spjallað (á fransk/enskri tungu) um mis gáfulega hluti eins og heimsmálin

je ne parle pas francais

Er að fara í stöðupróf í frönsku á eftir. Þetta er fyrir frönskukennslu fyrir Erasmusnema sem verður 2klst á viku fram að jólum, hlakka mikið til. Væri fínt að lenda bara í hægasta áfanganum og ná þessu almennilega svona einu sinni. Spurning hvort ég verði eini nemandinn í áfanganum, það væri ekki leiðinlegt að fá einkakennslu.

mjá

Ég sakna þess alveg ótrúlega mikið að vera ekki með kisu á heimilinu. Ekki hvaða kisu sem er heldur hana Kleópötru mína. Finnur heldur að ég sé biluð þegar ég spjalla við ketti nágrannanna á milli húsanna. Ég bara sakna hennar svo mikið og ég get ekki talað við hana á skype eins og við aðra sem ég sakna.

sushi og íslenskt nammi

Borðuðum sushi í gærkvöldi. Það var ótrúlega gott og var á verði sem fátækir námsmenn ráða við. Held jafnvel að þetta gæti orðið að föstum lið í lífi sambýlinganna, helst alltaf á föstudögum ef ég má ráða en ég er ekki viss um að ég fái að ráða. Eftir matinn fórum við á nýja hverfisbarinn okkar (altso gamall bar en nýr fyrir okkur). Þar römbuðum við inn á hina fínustu reggietónleika og fékk ég loksins smá útrás fyrir dansþörf mína. Þetta er ansi skemmtilegur bar, ekki mjög stór en þarna var saman kominn góður hópur fólks, allra kvikinda líki, hvítt, svart, stórt, lítið, feitt (þó eiginlega enginn því frakkar eru ekki feitir eins og áður hefur komið fram), gellur, gæjar, lúðar og dreddlockarar. Mjög skemmtilegt fyrir mannfræðinemann mig að vera á svona fjölbreittum stað.
Í morgun vöknuðum við dyrabjölluna kl.10 en henni var dinglað eins og 15 banhungraðir hákarlar væru á eftir þeim sem væri með fingurinn á bjöllunni, svo oft og svo lengi var dinglað áður en við höfðum rænu á að opna fyrir viðkomandi og að við töldum jafnvel bjarga lífi hans um leið. Það var þó ekki, heldur reyndist þetta vera póststarfsmaður að koma með risa kassa handa Finni með hinum ýmsu gersemum frá Íslandi. Ásamt ýmsu öðru var í kassanum ýmiskonar íslenskt sælgæti sem Olga (mamma Finns) hafði stungið í með. Finnur gaf mér að smakka á kræsingunum eins og sönnum sambýlingi sæmir og fær Olga hér með bestu þakkir fyrir sendinguna, hún var afar gómsæt með kaffinu.
Hér í borginni er svo mikið að dásamlegum verslunum sem selja alllskonar náttúrudót, matvöru, snyrtivörur, sjampó, bækur um notkun náttúruvara, uppskriftabækur, ilmolíur og annað lífrænt. Þótt þessar vörur séu talsvert ódýrari hér en heima þá kosta þær samt sitt en eru bara í svo miklu meira magni og úrvali en ég hef séð áður. Ef ég væri milljónamæringur þá myndi ég bara borða lífrænt ræktaðan mat og nota lífrænar vörur það sem eftir er en þangað til peningatréið mitt fer að blómstra ætla ég að nota ferðir í þessar verslanir sem svona sjálftreat (sjálfbætandi/gleðjandi) kannski einu sinni í viku eða svo. Er búin að kaupa mér byrgðir af kínóaflögum, agavesýrópi, hunangi, hrísgrjónamjólk og hunangskexi auk þess sem ég keypti mér bók með uppskriftum af hinum ýmsu smyrlsum. Á núna bara eftir að þýða hana og finna rósarvatn sem virðist vera í mörgum uppskriftunum og er greinilega allra meina bót.
Er hinsvegar ekki búin að kaupa mér einnasta kjól (og reyndar enga flík nema eitt par af espatrillum) síðan ég kom fyrir rúmum fimm vikum síðan og verður það að kallast persónulegt met.
Finnur verður 22 ára á morgun og ætlum við að bjóða eina fólkinu sem við þekkjum í borginni, Jeanne og Adrian í mat. Það sem Finnur hinsvegar ekki veit er að gjöfin hans er inni í geymsluhólfi svefnsófans sem hann situr á í augnablikinu! Finnur, mannstu þegar þú sagðir að þú myndir ekki geta staðist það ef leigusalinn hefði sagt að við mættum alls ekki opna einn skápinn í herberginu, aldrei, jafnvel þótt það heyrðist hljóð úr honum???????(fyrir lesendur skal það tekið fram að það er enginn skápur í íbúðinni sem við ekki megum opna og hingað til hafa ekki heyrst nein torkennileg hljóð úr þeim eina skáp sem er til staðar).
Kannski er ég svona ótrúlega treg en ég er búin að vera á heimasíðu amazon.com að reyna að kaupa mér skólabók örugglega í rúman klukkutíma. Ég er búin að finna bókina, setja hana í "innkaupakörfuna" og fylla út allar nauðsynlegar upplýsingar en get ekki með nokkru móti fundið hvar ég á að setja sendinguna af stað. Hjálp!
ætla að reyna að skella inn fleiri myndum af íbúðinni.

...og ekki hleypa ókunnugum inn á meðan ég er í burtu!

Fengum bréf frá leigsalanum okkar, sem er frá alsír en býr í Þýskalandi í vikunni. Í bréfinu stóð að það muni koma arkitekt sem við eigum að hleypa inn, hann ætli að setja eitthvað inn í herbergið hans Finns, eitthvað sem við skiljum ekki hvað er. Hann sagði jafnframt að við ættum ekki að hleypa neinum öðrum ókunnugum inn, það gæti verið hættulegt. Veit ekki afhverju en mér fannst ég vera komin á svið í sýningu sem hét "sambýlingarnir tveir" sem var einskonar systraverk Kiðlinganna sjö. Er annars ansi hrædd um að við sambýlingarnir séum í vondum málum þar sem við erum búin að brjóta eitt glas (hef grun um að það hafi verið dijon sinnepskrukka) og haldfangið á einum hvítum bolla, það stendur svart á hvítu á listanum að þetta hafi hvoru tveggja verið í nothæfu ástandi þegar íbúðin var afhent okkur.

Nokkrir staðreyndapunktar til viðbótar:
Hér finnst varla einstaklingur undir 35 ára sem ekki er með amk 1 lokk (piercing) fyrir ofan axlir fyrir utan í eyrnasnepplunum. Það er ekki óalgengt að hafa 1-3 í vörunum, einn í nefinu, augabrúnunum, kinnunum og svo hef ég séð tvær stelpur með pinna í gegnum hálsinn við efstu hryggjarliðina. Kannski er ég svona mikil bleiða en ég ætla að halda mig við þessi þrjú sem ég er með í eyrunum.
Einnig finnast fleiri dreadlockarar (hár eins og Bob Marley var með) hér en samtals í allri New York borg
í borginni er svakalega mikið af betlurum (ef ég lenti í þeirri ömurlegu aðstöðu að búa á götunni myndi ég líka búa hlýjum stað eins og Montpellier en ekki t.d. í Minneapolis þar sem frostið fer niður í -30 í nokkrar vikur á ári), fleiri en í öllu New York fylki. Þetta fólk er þó mis illa á sig komið, allt frá gömlum konum og mæðrum með nokkur börn upp í unga menn sem virðast nokkuð vel á sig komnir í sæmilegum klæðum en eru kannski bara dálítið latir. Þetta fólk er oftar en ekki með fleiri en einn og fleiri en tvo risahunda með sér.
Sporgvagnar eru snilld. Þeir ganga alla daga vikunnar frá morgni og fram yfir miðnætti og það líða aldrei fleiri en 10mín á milli ferða, yfirleitt meira svona eins og 3 mín. Þeir keyra borginna á alla enda og eru loftkældir í miklum hita.

Mér skilst að við ætlum að borða sushi í kvöld, hlakka til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband