sushi og íslenskt nammi

Borðuðum sushi í gærkvöldi. Það var ótrúlega gott og var á verði sem fátækir námsmenn ráða við. Held jafnvel að þetta gæti orðið að föstum lið í lífi sambýlinganna, helst alltaf á föstudögum ef ég má ráða en ég er ekki viss um að ég fái að ráða. Eftir matinn fórum við á nýja hverfisbarinn okkar (altso gamall bar en nýr fyrir okkur). Þar römbuðum við inn á hina fínustu reggietónleika og fékk ég loksins smá útrás fyrir dansþörf mína. Þetta er ansi skemmtilegur bar, ekki mjög stór en þarna var saman kominn góður hópur fólks, allra kvikinda líki, hvítt, svart, stórt, lítið, feitt (þó eiginlega enginn því frakkar eru ekki feitir eins og áður hefur komið fram), gellur, gæjar, lúðar og dreddlockarar. Mjög skemmtilegt fyrir mannfræðinemann mig að vera á svona fjölbreittum stað.
Í morgun vöknuðum við dyrabjölluna kl.10 en henni var dinglað eins og 15 banhungraðir hákarlar væru á eftir þeim sem væri með fingurinn á bjöllunni, svo oft og svo lengi var dinglað áður en við höfðum rænu á að opna fyrir viðkomandi og að við töldum jafnvel bjarga lífi hans um leið. Það var þó ekki, heldur reyndist þetta vera póststarfsmaður að koma með risa kassa handa Finni með hinum ýmsu gersemum frá Íslandi. Ásamt ýmsu öðru var í kassanum ýmiskonar íslenskt sælgæti sem Olga (mamma Finns) hafði stungið í með. Finnur gaf mér að smakka á kræsingunum eins og sönnum sambýlingi sæmir og fær Olga hér með bestu þakkir fyrir sendinguna, hún var afar gómsæt með kaffinu.
Hér í borginni er svo mikið að dásamlegum verslunum sem selja alllskonar náttúrudót, matvöru, snyrtivörur, sjampó, bækur um notkun náttúruvara, uppskriftabækur, ilmolíur og annað lífrænt. Þótt þessar vörur séu talsvert ódýrari hér en heima þá kosta þær samt sitt en eru bara í svo miklu meira magni og úrvali en ég hef séð áður. Ef ég væri milljónamæringur þá myndi ég bara borða lífrænt ræktaðan mat og nota lífrænar vörur það sem eftir er en þangað til peningatréið mitt fer að blómstra ætla ég að nota ferðir í þessar verslanir sem svona sjálftreat (sjálfbætandi/gleðjandi) kannski einu sinni í viku eða svo. Er búin að kaupa mér byrgðir af kínóaflögum, agavesýrópi, hunangi, hrísgrjónamjólk og hunangskexi auk þess sem ég keypti mér bók með uppskriftum af hinum ýmsu smyrlsum. Á núna bara eftir að þýða hana og finna rósarvatn sem virðist vera í mörgum uppskriftunum og er greinilega allra meina bót.
Er hinsvegar ekki búin að kaupa mér einnasta kjól (og reyndar enga flík nema eitt par af espatrillum) síðan ég kom fyrir rúmum fimm vikum síðan og verður það að kallast persónulegt met.
Finnur verður 22 ára á morgun og ætlum við að bjóða eina fólkinu sem við þekkjum í borginni, Jeanne og Adrian í mat. Það sem Finnur hinsvegar ekki veit er að gjöfin hans er inni í geymsluhólfi svefnsófans sem hann situr á í augnablikinu! Finnur, mannstu þegar þú sagðir að þú myndir ekki geta staðist það ef leigusalinn hefði sagt að við mættum alls ekki opna einn skápinn í herberginu, aldrei, jafnvel þótt það heyrðist hljóð úr honum???????(fyrir lesendur skal það tekið fram að það er enginn skápur í íbúðinni sem við ekki megum opna og hingað til hafa ekki heyrst nein torkennileg hljóð úr þeim eina skáp sem er til staðar).
Kannski er ég svona ótrúlega treg en ég er búin að vera á heimasíðu amazon.com að reyna að kaupa mér skólabók örugglega í rúman klukkutíma. Ég er búin að finna bókina, setja hana í "innkaupakörfuna" og fylla út allar nauðsynlegar upplýsingar en get ekki með nokkru móti fundið hvar ég á að setja sendinguna af stað. Hjálp!
ætla að reyna að skella inn fleiri myndum af íbúðinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Föndurhornið, 6. þáttur:

Liggja vegir hamingjunnar gegnum magann og húðina? Mér finnst það verðugt rannsóknarefni fyrir mannfræðinga að kanna hvort rándýrt dót, sem í hagnaðarskyni er kallað náttúru-eitthvað (kannast hlustendur við vélrænt ræktað hveiti?), veiti fólki hamingju? Eru bændur víða um heim, sem ekki hafa efni á að kaupa áburð og bera skít á akrana, hamingjusamari, heilbrigðari og betri til munns og handa en þeir sem kaupa vélræktaða eitrið og efnaglundrið, sem borið er á húð og hár? Eru eitrið og glundrið v/s skítræktuðu undrin afgerandi þáttur í hamingju og lífslíkum? Þetta finnst mér verðugt rannsóknarverkefni. Náttfatamaðurinn frá Nasaret hélt því fram að maginn hefði ekkert með hamingju að gera, sbr. maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, en auðvitað verður að taka því með fyrirvara því það var ekki allt skynsamlegt sem haft var eftir honum (og sumt var skáldað, annað misskilið). Mig minnir hann hafi talað um að þetta væri spurning um hófsemi og rétt hlutföll af eitri og glundri v/s skítaundrin en kannski misminnir mig, það getur verið ég hafi heyrt þetta haft eftir föndurmanninum í Brussel.

Málfarsráðunautur og tæknimaður dyrabjölluþjónustunnar í Matonge kannast ekki við að dyrabjöllum sé dinglað, enda þýðir sögnin að dingla að sveifla einhverju fram og aftur. Í útlenskum málum er enn notuð sögnin að hringja í þessu sambandi og í orðasafni Orðabókar HÍ er að finna dæmi frá 20.öld um að dyrabjöllum sé hringt eða að hringt sé á dyrabjöllunni. Kannast hlutendur við það orðalag?

Góðar stundir. 

Þorgeir (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 23:45

2 Smámynd: Hildur Björgvinsdóttir

ég vissi það, ég var búin að skrifa "hingja" allstaðar þar sem stendur "dingla" en þá kom lítill púki, settist á hægri öxlina og hvíslaði í eyrað á mér "ertu vitlaus kona, maður segir ekki hringja dyrabjöllunni, maður dinglar dyrabjöllunni" og þar sem ég var ekki tilbúin til að gera mig að atlægi fyrir framan alheiminn þá gerði ég eins og mér var sagt og skrifaði dingla. Ég held að þessum púka verði vel dinglað næst þegar ég sé hann.

Annars er það marg sannað að vegir hamingjunnar liggja í gegnum magann og mannfræðingurinn Sveinn Eggertsson gerði rannsókn meðal "frumbyggja" Papúa Nýju Gíneu á því hvernig þeir skynja heiminn í gegnum litarhaft húðarinnar svo hver veit nema hinn helmingur hamingjunnar liggi einmitt í gegnum húðina. Hugsum aðeins um það.

Hildur Björgvinsdóttir, 23.9.2007 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband