mánaðarbyrgðir af regni niður á 30mín

Erum nú orðin tengd við umheiminn hér að 5,rue du Chapeau Rouge og er gott að geta sagt skilið við netþjónustuaðilana sem maður borgar full mikið fyrir hæga tengingu og ónýt lyklaborð.
Annars vil ég veita Hauki bróður 1.verðlaun fyrir að vera gasbakarofnsérfræðingur fjölskyldunnar en ráð hans svínvirkuðu við að koma ofninum í gang. Reyndar helst takkinn ekki inni og þurfum við því að reyra hann niður með mjög mikið af límbandi sem þó dugar ekki alltaf til og þarft þá að rífa allt af og byrja upp á nýtt. En það lítur út fyrir að líbandskostnaður heimilisins verði nokkuð hár þar sem einnig þurfum við að reyna að festa sturtuhausinn á þar til gerða stöng sem er brotinn því ég nenni ekki að halda á sturtunni í heilt ár, það þarf að líma aftur læsinguna á hurðinni að herberginu hans Finns svo hann hætti að fá panik á hverjum morgni af ótta við að vera fastur þar inni til eilífðar. Í gær byrjaði svo að rigna. Ímyndið ykkur uppsafnaða rigninu heils mánaðar koma niður á ca.30 mín. Við höfum aldrei nokkurntíman á ævinni séð annan eins vatnsflaum, hélt að svona væri bara í teiknimyndunum. Nema hvað það er einhverskonar trekt steypt upp í loftið fyrir ofan eldavélina og hún fór að mígleka með tilheyrandi skít og drullu svo björgunaraðgerðir fóru í gang og nú er búið að rígfesta einn af eldhúspottum heimilisins, með límbandi að sjálfsögðu, upp í loftið.

Kennari kom að máli við mig í gær eftir 3 tíma fyrirlestur í mannfræði "foreldra" um ættrakningu í móður og föðurlegg og spurði mig hvernig gengi. Ég sagði honum eins og var að ég skildi svona 2/10 af því sem fram færi í tímanum. Hann varð miður sín og spurði hvort hann talaði svona hratt. Ég svaraði honum að þetta hefði ekkert með hann að gera (hann talar reyndar bara frekar skýrt) heldur væri þetta frönskukunnátta mín sem væri að hefta mig. "Þú getur þá allavega lesið námsefnið og verið einhverju nær þannig". Ég svaraði eins og var að ég gæti ekki lesið stakt orð á tungumálinu hans og lá þá við að ég þyrfti að sópa andlitið á honum upp af gólfinu svo hissa/hneikslaður var hann. "og hvað ætlarðu að gera? Ætlarðu að taka prófin um jólin?" Það veit ég ekki og það mun bara koma í ljós. Ég lít svo á að dvöl mín hér sé fyrst og fremst hugsuð til að ná tökum á franskri tungu númer 1,2 og 3 en einnig að upplifa franska menningu, borða góðan mat, búa þar sem gott veður ríkir allan ársins hring, kynnast nýju fólki og læra að slaka á og njóta augnabliksins, allt annað, þar með talinn árangur í mannfræðinámi er plús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæli með Gafferteipi frá Tesa eða Progaff!

Ingi (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 15:13

2 identicon

Hey ég er búinn að fá 2x 1.verðlaun síðan ég kom hingað. Í fyrsta lagi er ég með 6.5 L lung-capacity (lungna rúmmál), sem mér er sagt að sé Belgíumet í slíkum fræðum. Einnig setti ég heimsmet í viðbragði (sjá grænan flött og þrýsta á hnapp þegar flötur verður rauður). Meðaltal mitt var samanlagt skor mitt var 0,96 sek eftir 8 skipti og höfðu frómustu sérfræðingar aldrei séð þetta leikið. Annars vil ég benda þér á að það er ekki sniðugt að nota límband í sturtuna. Í stöðunni eru þrír kostir. Nr 1, kaupa nýjan sturtuhaus og súlu með (á að giska 45 evrur), kostur tvö, kaupa hosuklemmu (á að giska 25-30mm í þvermál) og mæli  ég þá helst með þeim sem LUX framleiða. 3. ráðið er að kaupa Jotaproff Akryl 07 gljástig og mála baðið. Þeir reyna liklegast að selja þér Lady Akryl því hún er dýrari en spurðu um Jotaproff, það er það sem fagmennirnir kaupa. Ég mæli með því að þú kaupir bara B stofn og biðjir þá svo um að blanda signal-gulan. Þegar þessi málning er svo og komin upp verða engar rakaskemmdir. Annars vil ég benda ykkur á að skipta um þennan takka undir ofninu, það á EKKI að REDDA hlutum með límbandi.

Haukur Björgvinsson (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 17:33

3 identicon

Mikið er gaman að þú sért komin með blogg, þá nær maður að fylgjast vel með þér:)

Annars lýst mér rosa vel á þetta hjá þér og ég held þú sért með gott hugarfar í farteskinu. Þú verður farin að skilja hvað á sér stað í kennslustundum áður en langt um líður. Mér lýst líka voða vel á að þú farir í jóga. Ég er einmitt að fara að gera það sjálf. Gott fyrir styrk, einbeitningu og góð afslöppun, ekki veitir af.

Gangi þér nú allt í haginn ljúfan, hlakka til að lesa fleiri færslur.

xxx

Hneta Rós

Hneta Rós Þorbjarnardóttir (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 20:36

4 identicon

Bara komnar myndir og allt! Ég er í blússandi nostalgíukasti, ekki bara við að sjá götumyndina heldur líka til stúdentalífsins í Montpellier með öllum vonlausu reddingunum, sturtuhausum sem detta á hausinn, límbandi sem helst ekki við, Frökkunum sem gera mann gaga... Ég held líka að kennarar við University Paul Valéry hafi farið á viðmótsnámskeið, ég minnist a.m.k. að þeir hafi haft frumkvæði að því að tala við okkur aumu skiptinemana. Auðvitað ertu aðallega þarna til að læra frönsku og njóta lífsins, að ná prófunum í mannfræðinni verður bara bónus, það er gott mottó.

Það var yndislegt að fá frá þér bréfið langa, takk fyrir það. Ég sendi þér bráðlega annað eins.

Hafið það sem best sambýlingar,

Jóhanna 

Jóhanna Björk Guðjónsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 21:44

5 identicon

djöfull er ég ánægð með þig!!!

og hvað ætlaru að elda nú þegar gasofninn er kominn í gagnið?

sibba (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband