Færsluflokkur: Lífstíll

útboð

Óskað er eftir tilboði í eftirfarandi verk.

Verkið fellst í því að kenna undirritaðri að prjóna.

Verklýsing:
1.hluti - Kenna hverni fitja á upp prjóna. Þaðan verður farið yfir í að prjóna trefil í þremur litum, þarf hann að innihalda bæði slétt og brugðið.
2.hluti- kenna hvernig lesa á úr uppskriftum prjónablaða
3.hluti - kenna hvernig prjóna á vettlinga og sokka með öllu því sem fylgir, þumli, hæl og stroffi
4.hluti- kenna hvernig breyta á prjónauppskriftum í blöðum, þ.e. stærðum og hlutföllum
5.hluti-kenna hvernig prjóna á peysu í fullorðinsstærð. Þarf peysan að vera í amk tveimur litum.

Tími verkefnis:
Áætlað er að hefja verkefnið um miðjan júní eða eigi síðar en í byrjun júlí eftir samkomulagi. verklok eru áætluð í lok ágúst en búast má við að þau dragist þó eitthvað fram á haustið og verður greitt samkvæmt því.

Skilyrði:
Umsækjendur þurfa að hafa talsverða reynslu af prjónaskap og geta uppfyllt öll atriði í verklýsingu. Algjört skilyrði er að umsækjandi hafi mjög mikla þolinmæði, meiri en gengur og gerist þar sem verkefnið er talið mjög krefjandi í alla staði. Æskilegt er að viðkomandi drekki kaffi eða amk te og finnist súkkulaði gott.

Kostnaðaráætlun:
Borgað er samkvæmt taxta faxaskjóls group (sjá neðar)

umsóknir skulu berast á þessa síðu eigi síðar en 23.5.2008

Hildur Björgvinsdóttir

Samkvæmt leglu nr.2 hjá Faxaskjóli group eru verkefni sem unnin eru að kvöldlagi eða um helgar greidd í ótakmörkuðu magni kaffis, te, súkkulaði, poppkorns, hneta, þurrkaðra ávaxta og osta. Laun eru greidd á meðan á hverri vakt stendur.
Uppsöfnuð yfirvinna greiðist eftir samkomulagi í formi matarboða og rauðvínsdrykkju


je parle pas

Hef staðið sjálfa mig að því undanfarna daga að hugsa á frönsku og tala við sjálfa mig á franskri tungu ef út í það er farið. merkilegt í ljósi þess að ég kann eiginlega alls ekkert að tala frönsku þegar á mig er yrt.


allt stopp

Veit ekki hvað ég sagði eða gerði en sambýlingur minn ákvað að yfirgefa mig í heila tólf daga!...kannski af því að það voru einhverjar skrúplur á honum hvort hann ætti að fara með skiptinemafjölskyldu sinni eða ekki upp í fjöllin á þann himneska stað sem sumarhúsið þeirra er staðsett. benti honum góðfúslega á að mjög, mjög bráðlega mun hann snúa aftur á malbikið í reykjavík og þá verður ekki aftur snúið svo auðveldlega. svona fyrir utan hvað þau eru mun betir félagsskapur en ég sem reyti hár mitt og blóta tölvu og bókum en þó mest seinaganginum í sjálfri mér í sand og ösku allan liðlangan daginn frá sólarupprás til sólseturs. ef einhver setti mér fyrir að ég ætti að skrifa um ársdvöl mína hér við miðjarðarhafið væri ég kominn með 200bls á morgun, enda hvorki kenningar né heimildir í þeirri frásögn, hver var það sem setti reglurnar um svona ritgerðarskrif, segið mér það og ég skal finna viðkomandi og sýna honum hvar davíð keypti ölið. er sem sagt ekki komin með stöku orð meira en þessi 8.000 sem ég skrifaði um fyrir allt of löngu síðan. er að hugsa um að skella mér á ströndina á morgun og láta sjávarloftið leika um heilann, vonandi kemur andargiftin yfir mig.

sendið þetta áfram, setjið þetta á bloggin ykkar...og skellið ykkur á góða tónleika!

Kæri vinur,

Eftir fyrstu auglýsingaherferð Blátt áfram, kom til mín kona með tárin í augunum og sagðist vilja þakka fyrir að hafa séð auglýsinguna í sjónvarpinu. Sat og horfði á með 11 ára gamalli dóttur sinni sem brotnaði saman og sagði frá kynferðislegu ofbeldi.

Önnur ung stúlka sagði frá og kom þá í ljós að sá maður var að beita margar ungar stúlkur kynferðislegu ofbeldi og fékk hann dóm í kjölfarið.

Þetta hefur áhrif !

1 af hverjum 5 stúlkum og 1 af hverjum 10 drengjum verða fyrir kynferðislgu ofbeldi fyrir 18 ára aldur(Hrefna Ólafsdóttir 2002)

Styrktartónleikar verða haldnir á fimmtudaginn til að safna fyrir birtingu á nýrri auglýsingaherferð, átakið „Verndarar barna“

Blátt áfram þarf á þinni hjálp að halda, komdu og hlustaðu á eina af þínum uppáhaldshljómsveitum og styrktu gott málefni.


Styrktartónleikar 8 maí 2008
Stórtónleikar á NASA

Styrktar tónleikar á NASA 8 maí 2008.

12 af bestu hljómsveitum landsins koma fram

Húsið opnar klukkan 19:00 og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00

Fram koma:

Nylon, Sálin hans Jóns míns, Ný Dönsk, Ljótu Hálfvitarnir, Buff, Á móti sól, Merzedes club, Rokksveit Rúnars Júlíussonar, Einar Ágúst, Brain Police, Sverrir Bergmann, Bermuda

Miðaverð er 2000 kr og rennur allur ágóðinn til Blátt áfram.

Safnað er fyrir nýrri auglýsingaherferð „Verndarar barna“

Miðasala á Pizzo Pizzería á Grensásveg !!

Blátt áfram þakkar fyrir þetta frábæra framtak!


Bestu kveðjur,
Sigríður Björnsdóttir
Blátt áfram!


hálfnað verk þá hafið er...

8.000 orð, 20bls = rúmlega hálfnuð. Komst ekkert út í sólbað í allan heilan dag og verður að segjast eins og er að það þykir mér hámark óréttlætisins. Til að bæta mér það upp ætla ég nú að rölta og ná mér í sushi.

allt að klárast í kotinu

Hvað ætli maður komist langt með einn líter af ólífuolíu á fjórum vikum? ef ég nota sojasósuna ofan á morgunmatinn þá klárast hún örugglega á mánuði. Fljótandi handsápuna (eigum ennþá sápustykki) væri nú hægt að nota líka í sturtuna og ef við miðum við tvo einstaklinga í sturtu (i sitthvoru lagi) annan hvorn dag, þá verður nú ekki mikið eftir í lok maí. Held ég komist þó ekki hjá því að kaupa klósettpappír áður en við förum, gerum þá ekki annað en að nota hann sem servíettur þegar það koma gestir. Það er smá snúið að versla inn vitandi það að brátt mun ég fara, ekkert fara í smá tíma og koma síðan aftur heldur bara fara fara og líklega aldrei koma aftur. En hvað með fulla pakkann af maizenamjölinu, hlít að meiga flytja hann inn til landsins, það er ekki eins og innihaldið sé haldið kúariðu eða neitt slíkt.

einn fyrir alla og allir fyrir einn

Hef ekki séð auglýsta neina göngu þó líklegast sé hún einhversstaðar, er jú í Frakklandi, landi gangnanna. Ælta þó að sýna samstöðu í verki, ekki skrifa neitt í dag heldur flatmaga á ströndinni og lesa eitthvað sem er ekki flóknara en andrésblað.

Finnur yfirgaf mig í morgun, fór til Marseille og ætlar sér þaðan til spánarlandsins á morgun og eitthvað fram yfir helgi. Skil ekki hvernig hann getur gert mér þetta, aldrei nokkurntíman myndi ég skilja hann einan eftir í meira en nokkra klukkustundir...


Það er hátíð í bæ

Tangohátíð þar sem dansað er undir berum himni þrjú kvöld (18-00) við undirleik tríós á einu af fallegu torgum borgarinnar. Hlusta á dásamlega tónlist, dansa nokkra dansa (verða nú aldrei fleiri þar sem eins og alltaf eru ca.4 konur á móti hverjum 2 körlum og aðeins þær bestu fá að dansa allan tíman, er á fimm ára planinu að komast í þann hóp) og horfa á glatt fólk skemmta sér á heilbrigðan og fallegan máta. Sannfærist betur og betur að ég er fædd nokkrum breiddargráðum of norðanlega.

nágrannarnir heima í stofu

Fólkið á móti er að fá sér hádegismat úti á svölum, sallat og með því og smá rauðvínsdreitill. Einhver er að spila á píanó neðar í götunni, hver sem það er þá er hann enginn byrjandi, hver prelúdían á fætur annarri. Börnin eru í boltaleik út á götu (engin bílaumferð í hverfinu þar sem við búum) og einhver svara í símann á hæðinni fyrir neðan. Kettirnir tveir flatmaga á þakinu á móti. Eftir að hafa haldið sig innandyra bak við gluggahlear í næstum fimm mánuði flykkist fólk nú út á götur og torg, allir með bros á vör, blóm í annarri baguette í hinni sáttir við lífið og tilveruna enda fullkomið veður, 20c og sól, ekki of heitt, ekki of kalt, bara gott.

a-ö, ó-æ

Held ég verði að gefa öllum Íslendingum og Mark vini mínum klapp á bakið fyrir að tala hið fáránlega tungumál sem íslenskan er. Það stendur ekki steinn yfir steini þegar kemur að reglum og því engin leið að læra neitt "by heart", alltaf einhver undantekning.

Hér eru tveir dagar
um tvo daga
frá tveim dögum
til tveggja daga

Ég veit ekki hvor lærir meira í kennslustundunum, ég eða nemandi minn sem spyr mikið og oft er fátt um svör. Benti honum á að franskan væri nú ekkert auðveld heldur þar sem aðein væri borinn fram hluti af hverju orði, hann vildi ekkert kannast við það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hildur Björgvinsdóttir

Höfundur

Hildur Björgvinsdóttir
Hildur Björgvinsdóttir
Höfundur er mannfræði nemi,listunnandi og matargat sem skellti sér til Frakklands til að stúdera manninn,innbyrða menninguna og borða croisant og drekka vin,allt saman á franskri tungu sem hún varla skilur betur en japonsku eda mal frumbyggja Amazon.

Spurt er

Hver er uppáhalds árstíðin þín?
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband